Víkur nú sögunni að lokum að hinu nýja sjúkrahúsi sem til stendur að reisa við Hringbraut. Björn Zoëga, forstjóri LSH, segir þörf á nýju sjúkrahúsi hafa verið til staðar um langt skeið og nefnir fyrir því nokkrar ástæður. „Við erum að reka tvær meginstoðir á tveimur stöðum, í Fossvogi og á Hringbraut, og það kostar okkur mjög mikla fjármuni í tvöföldun á vöktum og þjónustu allan sólarhringinn og alla daga.

Í öðru lagi eru allar okkar byggingar orðnar of gamlar, nema barnaspítalinn og hluti af geðdeildinni. Byggingarnar voru flestar hannaðar á sjötta áratugnum, eða fyrr, og það er ýmislegt við hönnun þeirra sem heftir starfsemina. Aðstaðan er óviðunandi, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk. Við höfum ekki nóg af herbergjum fyrir sjúklinga og þurfum víða að vera með sex sjúklinga saman á herbergi. Þetta hefur ekkert með tæknina að gera heldur að sjúklingurinn fái að vera í friði með sinni fjölskyldu og minnka hættuna á að hann sýkist af öðrum og svo framvegis.

Til þess að geta rækt skyldur okkar sem háskólasjúkrahús þurfum við að stunda rannsóknir og við þurfum að kenna heilbrigðisstarfsfólki framtíðarinnar. Við þurfum að fá betri aðstöðu til þessa og hana fáum við þegar við sameinum okkur á nýjum spítala hér á Hringbrautinni.“

Áætlaður kostnaður við byggingunýs sjúkrahúss er að sögn Björns 51 milljarður króna. Byggingarkostnaður liggur ekki alveg fyrir en hann er áætlaður um 33 milljarðar en svo er gert ráð fyrir að kaupa þurfi tæki og rúm, sem ekki er hægt að flytja, og hleypur sá kostnaður á um 10 milljörðum. Auk þessa er talið að það kosti 7-10 milljarða aðendurnýja byggingar sem eru tilstaðar á spítalasvæðinu.

„Við reiknum með fjárhagslegu hagræði upp á 2-3 milljarða króna á ári en auðvitað eru í þessu óvissuþættir.“

Björn Zoëga, forstjóri Landsspítala-Háskólasjúkrahúss, er í viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar ræðir hann m.a. ítarlega um niðurskurð í rekstri spítalans, nýtt sjúkrahús og tækjakost hins núverandi spítala.