Fjölmörg samtök hagsmunaaðila í atvinnu-, viðskipta-, sjávarútvegs- og orkumála hér á landi hafa lagt fram sameiginlega umsögn þar sem þeir gera alvarlegar athugasemdir við drög að framvarpi til nýrra persónuverndarlaga.

Gagnrýna samtökin að reglugerð Evrópusambandsins um persónuvernd, svokölluð GDPR reglugerð, verði lögfest og látin ganga framar íslenskum lögum, á sama tíma og valdar greinar úr henni verði umritaðar og vikið frá ýmsum ákvæðum með lögum.

Telja samtökin að það að ekki sé farin svokölluð tilvísunaraðferð við innleiðinguna þar sem sérstakar útfærslur, ívilnandi sérreglur og takmarkanir sem settar verði, séu lögfestar svo sérstaklega, muni valda réttaróvissu og misskilningi í framkvæmd. Efast samtökin jafnframt um að þessi innleiðingaraðferð standist kröfur íslenskrar stjórnskipunar og 7. grein samningsins um evrópska efnahagssvæðið.

Fyrirtæki undanþegin upplýsingaskyldu á Norðurlöndum en ekki hér

Segja samtökin jafnframt að það gæti haft í för með sér umtalsvert tjón fyrir hið opinbera, atvinnulífið og viðsemjendur þeirra og veikja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi ef frumvarpið verði ekki orðið að lögum 25. maí næstkomandi.

Loks lýsa samtökin yfir andstöðu við að í frumvarpsdrögunum sé í mörgum tilvikum gengið lengra í innleiðingu en þörf er á með setningu íþyngjandi sérkrafa. Þar með talið að fyrirtæki þurfi að standa undir kostnaði við eftirlit, ólíkt því sem gildir í samkeppnislöndum.

Jafnframt mun ólíkt öðrum Norðurlöndum, vinnugögn og önnur undirbúningsgögn fyrirtækja ekki undanþegin upplýsingaréttinum. Segja samtökin alltof stuttan tíma þangað til regluverkið eigi að taka gildi og því brýnt að Persónuvernd sýni hófsemd í beitingu sekta á næstu misserum.

Að umsögninni standa:

  • Samtök atvinnulífsins
  • Samtök iðnaðarins,
  • Samtök ferðaþjónustunnar,
  • Samtök fjármálafyrirtækja,
  • Samtök verslunar og þjónustu,
  • Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi
  • Viðskiptaráð Íslands