Hækkun fasteignaverðs síðustu 12 mánaða á höfuðborgarsvæðinu nam 18,7% á fjölbýli og 18,8% á sérbýli og þarf að fara aftur til upphafs ársins 2006 til að sjá viðlíka tölur segir í nýjustu Hagsjá Landsbankans.

Lengi vel var verðþróunin á sérbýli töluvert ólík verðþróun fjölbýlis en verðið hefur tekið við sér síðustu mánuði en í febrúar á síðasta ári nam árshækkun sérbýlis 1,8% meðan hún var 18,8% í febrúar á þessu ári.

Árshækkunin nálgast 20% markið

Lengi vel var árshækkun fasteignaverðs á bilinu 8-10% en nú er hún að nálgast 20% markið. Vegna lágrar verðbólgu og lækkunar vísitölu neysluverðs án húsnæðis koma allar nafnverðshækkanir á húsnæði sem raunverðshækkun og rúmlega það, svo raunvirðið hefur hækkað um um það bil 20% frá febrúar 2016 til febrúar 2017.

Á sama tíma og húsnæðisverð hefur hækkað mikið síðan vorið 2016 hefur bilið milli húsnæðisverðs og byggingarkostnaðar aukist mikið, en hækkun vísitölu byggingakostnaðar á milli febrúar 2016 og 2017 var 1,8% meðan hækkun raunverðs á fjölbýli var eins og áður segir tæplega 20%.

Hagstæðara að byggja og selja en fyrir ári

Því er ljóst að mun hagstæðara er að byggja íbúðarhúsnæði nú og selja það en var fyrir ári síðan, en í febrúar 2016 var árshækkun íbúðaverð 7,9% meðan árshækkun byggingakostnaðar nam 3,8%, en þessar stærðir hafa þróast hratt í sína hvora áttina frá síðastliðnu vori.

Landsbankinn segir að raunverð fasteigna sé óðum að ná því stigi sem það var hæst í október 2007, en enn vanti um 4% upp á að raunverð fasteigna nái sínu sögulega hámarki sem það var í árið 2007.

Ótti um framboðsskort drífur verð upp

Segja þeir að þess verði ekki langt að bíða að farið verði yfir það hámark, haldist verðbólga áfram lág, en nú sé það ekki lengur kaupmáttaraukningin sem ýti verðinu upp heldur mikill framboðsskortur á húsnæði ásamt óttanum um að sú staða eigi eftir að versna.

Eignum á markaði hafi fækkað verulega á síðustu mánuðum vegna þess að sífellt fleiri bítist um þær íbúðir sem koma á markaðinn og er minna framboð en verið hefur síðastliðin 10 ár. Sölutími eignanna hefur einnig haldið áfram að styttast.