Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Analytica hefur fært niður hagvaxtarspá ársins í ár úr 6% niður í 4,5-5,2% vegna minni vaxtar ferðaþjónustu en spáð hafði verið.

Seðlabankinn gerði líkt hið sama í hagvaxtarspá sinni sem var kynnt í síðustu viku, en Yngvi segir vísbendingar um að toppur hagsveiflunnar verði fyrr en talið var að því er segir frá í Morgunblaðinu í dag. Segir hann að hagvöxtur næsta árs geti farið niður í 2,5%. Það yrði kólnun.

Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins tekur í sama streng og segir útlit fyrir minni hagvöxt í ár og næstu ár en spáð var. „Greiningaraðilar eru að færa niður spár um hagvöxtinn. Vöxtur ferðaþjónustu í ár hefur ekki verið jafn mikill og spáð var,“ segir Ingólfur.

Vanmetin voru áhrif gengisstyrkingarinnar á ferðaþjónustuna að mati Gústafs Steingrímssonar, hagfræðings hjá Landsbankanum og samdráttur hafi orðið í vissum greinum hennar. Lítið svigrúm sé til launahækkana hjá útfluttningsfyrirtækjunum.

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands segir að þeir kraftar sem hafa drifið hagvöxtinn og útflutninginn, það er ferðaþjónustan og fjárfestingar tengdar henni, séu að gefa eftir.