Landsframleiðslan á fjórða ársfjórðungi jókst að raungildi um 11,3% frá sama ársfjórðungi í fyrra. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

Það er mesta aukning sem mælst hefur frá því á 4. ársfjórðungi 2007. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 8,4%. Einkaneysla jókst um 7,2%, samneysla um 1,7% og fjárfesting um 18,6%.

Fjárfesting á íbúðarhúsnæði á 4. ársfjórðungi jókst gífurlega mikið eða um 70,9% að raungildi borið saman við sama tímabil árið áður. Útflutningur jókst um 14% á sama tíma og innflutningur jókst um 8,8%, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

„Helstu drifkraftar hagvaxtar eru fjármunamyndun og einkaneysla ásamt utanríkisviðskiptum. Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst að raungildi um 2,6% frá 3. ársfjórðungi 2016,“ segir í fréttinni.