*

þriðjudagur, 19. júní 2018
Innlent 17. febrúar 2017 09:30

Hagvöxtur 5,9% árið 2016

Talið er að hagvöxtur hafi verið 5,9% í fyrra en spáð er að hagvöxtur verði um 4,3% á þessu ári.

Ritstjórn
Gert ráð fyrir talsverðri aukningu íbúðafjárfestingar og opinberrar fjárfestingar árin 2017 og 2018.
Haraldur Guðjónsson

Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út endurskoðaða þjóðhagsspá. Spáin nær yfir árin 2016 til 2022. Talið er að hagvöxtur hafi verið 5,9% í fyrra en spáð er að hagvöxtur verði um 4,3% á þessu ári. Hagstofa Íslands gerir jafnframt ráð fyrir því að hagvöxtur verði á bilinu 2,5 til 3% árlega árin 2018 til 2022. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands. Frá aldamótum hafi hagvöxtur mælst mest árið 2007 þegar hann var 9,5%.

„Mikil umsvif eru í íslenskum þjóðarbúskap um þessar mundir en neysla, fjárfesting og utanríkisverslun hafa verið í örum vexti undanfarin misseri. Nýjustu niður­stöður þjóðhagsreikninga sem spáin byggist á ná til þriðja ársfjórðungs 2016,“ segir í fréttinni.

Einkaneysla er talin hafa aukist um 7% árið 2016 og gert er ráð fyrir að hún aukist um 5,9% árið 2017, 3,9% árið 2018 og 2,5 til 2,9% á ári seinni hluta spátímans. „Reiknað er með að samneysluvöxtur verði áfram hóflegur eða sem nemur 1,5% árlega,“ er tekið fram.

Fjárfesting er talin hafa aukist um 22,7% árið 2016 og spáð er að hún aukist um 12,6% árið 2017. Þó gerir Hagstofan ráð fyrir því að dragist úr henni eftir það. Einnig er gert ráð fyrir talsverðri aukningu íbúðafjárfestingar og opinberrar fjárfestingar árin 2017 og 2018.

Verðbólga hefur síðastliðin þrjú ár verið undir markmiði Seðlabankans og ef húsnæðisliður neysluverðsvísitölunnar er ekki talinn með hefur hún nánast staðið í stað. „Reikn­að er með að verðbólga aukist nokkuð árin 2017 og 2018 en víki ekki veru­lega frá verðbólgumarkmiði og stefni í átt að því árin 2019–2022,“ segir í fréttinni.

Hagstofan bendir jafnframt á að langvinnt sjómannaverkfall og möguleg endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hefur nokkra óvissu í för með sér.