Samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun var hagvöxturinn  á síðasta ári 4,2%. Áður hafði Hagstofan birt bráðabirgðatölur sem hljóðuðu upp á 2,6% hagvöxt. Þetta er því mun meiri hagvöxtur en áður var áætlað. Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. "Hagvöxtur á síðasta ári var því yfir en ekki undir jafnvægishagvexti og þenslan að aukast en ekki að minnka líkt og fyrri tölur bentu til. Endurskoðun hagvaxtar upp á við breytir mati á verðbólguþrýstingi upp á við og gæti haft einhver áhrif á aðgerðir Seðlabankans á næstunni þannig að líkleg tímasetning vaxtalækkunar gæti færst aftar í tímann. Mikill munur hefur verið á hagvaxtartölum síðasta árs og öðrum hagvísum er lýsa gangi hagkerfisins, s.s. tölum af vinnumarkaði sem benda til að ekki hafi dregið úr þenslunni í fyrra líkt og fyrri hagvaxtartölur gáfu til kynna," segir í Morgunkorni Glitnis.