Mat Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, á hagvexti á Evrusvæðinu hefur verið lækkað lítillega fyrir fyrsta ársfjórðung. Fór matið úr 0,6% í 0,5% á sama tíma og þeir lækkuðu mat sitt á vergri þjóðarframleiðslu svæðisins úr 1,6% í 1,5% fyrir allt árið.

En á sama tíma taka þeir fram að langflest evruríkjanna 19 bjuggu við meiri hagvöxt, meðan hann minnkaði einungis í Lettlandi og Grikklandi. Hagvöxtur í Þýskalandi varð hins vegar meira en tvöfalt hærri heldur en á síðasta ársfjórðungi ársins 2015, fór úr 0,3% í 0,7% og er hann áætlaður um um 1,3% frá síðasta ári.

Viðskiptaafgangur landsins minnkaði í kjölfar aukinnar innlendrar eftirspurnar, bæði heimila og ríkisins auk þess sem aukning varð á fjárfestingum í landinu. Milt veðurfar hjálpaði auk þess til við að aukning varð á byggingaframkvæmdum.

Hagvöxtur Grikklands minnkaði um 0,4% og Lettlands um 0,1% meðan hagvöxtur minnkaði einnig í Ungverjalandi og Póllandi, en hvorugt þeirra notar evruna sem gjaldmiðil.

Árum saman hefur verið lélegur hagvöxtur á evrusvæðinu og lýsti forseti evrópska seðlabankans, Mario Draghi, yfir áhyggjum af því að svo geti haldið áfram. Kallaði hann eftir því að stjórnvöld í ríkjum Evrópu ættu að ýta undir hagvöxt „af meiri ákveðni“.

Seðlabankinn hefur sjálfur reynt að ýta undir efnahagsvöxt með lágum eða jafnvel neikvæðum vöxtum núna í mörg ár, sem og með skuldabréfakaupum uppá 80 milljarða evra í hverjum mánuði. Vaxtaprósentan var lækkuð úr 0,05% í 0% á sama tíma og innlánavextir eru neikvæðir uppá 0,4%, sem þýðir að bankar verða að greiða seðlabankanum fyrir að geyma fé. Er það gert til að hvetja til aukinnar lána til fyrirtækja.