Hagvöxtur í Bretlandi nam einungis 0,3% á fyrsta ársfjórðungi ársins, sem er minnsti hagvöxtur í heilt ár. Hagvöxturinn var jafnframt töluvert lægri en 0,7% hagvöxtur síðasta ársfjórðungs síðasta árs, en hagfræðingar höfðu spáð meiri hagvexti.
Samkvæmt hagstofu Bretalnds var ástæða hægari hagvaxtar að dregið hefði úr verslun og eyðslu í ferðalög og hótelrými, sem komi til vegna hækkandi verða í kjölfar veikingar pundsins.

Breska pundið hefur veikst umtalsvert síðan Bretland ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga út úr Evrópusambandinu, eða um 14% síðan þjóðaratkvæðagreiðslan átti sér stað. Í kjölfar úrslitanna dróst eyðsla íbúa ekki jafnhratt saman og sumir hagfræðingar höfðu spáð, en nú virðist sem aukin óvissa og hærri verð séu farin að hafa þau áhrif að það dragi úr hagvexti í landinu.

Kallum Pickering, hagfræðingur á Berenberg bankanum í Þýskalandi sagir að þrátt fyrir að tölurnar virðist eitthvað til að hafa áhyggjur af bendir hann á að „uppsveiflan er nú á sínu áttunda ári, og full atvinna er á vinnumarkaðnum.“