*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Erlent 17. apríl 2017 09:55

Hagvöxtur í Kína umfram væntingar

Hagvöxtur í Kína á fyrsta ársfjórðungi nam 6,9%. Hagvaxtarmarkmið kínverskra stjórnvalda á þessu ári er 6,5%.

Ritstjórn
epa

Hagvöxtur í Kína á fyrstu þremur mánuðum þessa árs nam 6,9% borið saman við sama tímabil í fyrra, samkvæmt kínversku hagstofunni. Alls nam framleiðsla allrar vöru og þjónustu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs 18.068,3 milljörðum yuan.

Vöxtur kínverska hagkerfisins var umfram væntingar, að því er segir í frétt BBC, en í mars síðastliðnum lækkuðu kínversk stjórnvöld hagvaxtarmarkmið sitt fyrir 2017 úr 6,7% í 6,5%. Þar að auki var hagvöxtur í Kína árið 2016 sá minnsti í 26 ár.

Vöxturinn er drifinn áfram af opinberum útgjöldum til innviða og aukinni eftirspurn á fasteignamarkaði. Þá var einkaneysla kröftug og jókst smásala í febrúar um 10,9% frá fyrra ári.

Samkvæmt frétt BBC eru hagvaxtartölurnar til marks um að hagvöxtur sé að ná meiri stöðugleika, þó mikilvægt sé að vera efins um opinberar hagtölur í Kína. Þá lifi „gamla“ Kína enn góðu lífi, þar sem hagvöxtur er enn drifinn áfram ríkisumsvifum – opinberum innviðafjárfestingum, uppgangi á fasteignamarkaði og skuldsetningu – en kínversk stjórnvöld höfðu heitið því að færa sig í átt að „nýju“, nútímalegu og opnu hagkerfi.

Skuldsetning í Kína er talin mikið áhyggjuefni. Skuldir opinbera geirans og einkageirans er nú meira en 250% af vergri landsframleiðslu. Útlit er fyrir að hlutfallið muni aukast enn frekar.

Stikkorð: Kína hagvöxtur Kína hagtölur
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim