Hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi var 6,7% í Kína, en hafði verið 6,8% síðastliðna þrjá fjórðunga, og hefur ekki verið svo lágur síðan 2016.

Haibin Zhu, hagfræðingur hjá JPMorgan Chase, sagði í samtali við Financial Times að helsta ástæða samdráttarins væri minni innviðafjárfesting, sem væri liður í átaki yfirvalda til að reyna að koma böndum á skuldsetningu héraðsyfirvalda.

Hann bendir á að stjórnvöld hafi þó svigrúm til að auka innviðafjárfestingu eða lækka skatta síðar meir, og auka þannig hagvöxt aftur.

Að sama skapi dróst vöxtur útlána og peningamagns í umferð saman eftir að hertar reglur um skuggabankastarfsemi tóku gildi, en seðlabankinn brást við með því að slaka á peningastefnunni. Greiningaraðilar búast því við að sú þróun muni snúast við á næstu misserum.

Áhrif áhyggna af hugsanlegu tollastríði við Bandaríkin eru þó ekki enn komin fram í tölunum, og gætu því sett strik í reikninginn í næstu hagtölum.