Næst stærsta hagkerfi heimsins, það kínverska, óx um 6,7 prósentustig árið 2016 og hefur efnahagsvöxtur í þessu fjölmennasta ríki heims ekki verið minni í 26 ár. Árið áður óx kínverska hagkerfið um 6,9%.

Hagvöxturinn í Kína var þó innan þeirra marka sem spáð var, en á síðasta ársfjórðungi ársins 2016 nam hann 6,8% sem er ívið meiri hagvöxtur á fjórða ársfjórðungi en búist var við. Samkvæmt könnun CNN fréttastofunnar , sem tók stöðuna á virtum hagfræðingum og sérfræðingum, var það viðbúist að hagvöxtur í Kína yrði 6,7%.

Kínverska ríkisstjórnin þurfti að beita sér fyrir því að auka hagvöxt í landinu með því að auka við fjárfestingar ríkisins í innviðum. Talsverðar áhyggjur eru þó af hárri skuldsetningu kínverskra fyrirtækja. Nokkur óvissa er með framtíðarhorfur hagvaxtar í landinu, en reiknað er með því að hagvöxtur hægi enn frekar á sér á næsta ári og verði 6,5%.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður sagt frá, þá hefur trúverðugleiki mælinga Kínverja á hagvexti beðið hnekki, eftir að upp komst um að kínverska fylkið Lianoing viðurkenndi að hafa falsað hagvaxtartölur til að láta rekstur fylkisins líta betur út. Einnig hafa sumir tekið því með fyrirvara að hagvöxtur í Kína hafi mælst 6,7% á þriðja ársfjórðungi þrjú ár í röð.