Hagvöxtur mældist 0,2% á evrusvæðinu á fyrsta ársfjórðungi, samkvæmt gögnum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Þetta er óbreytt staða á milli fjórðunga og talsvert undir meðalspá hagfræðinga sem hljóðaði upp á 0,4% hagvöxt innan myntsvæðisins. Breska dagblaðið Financial Times segir hagtölurnar gera vonir manna um að hagkerfið sé að snúa til betri vegar eftir fjárkreppuna að engu. Spár gera ráð fyrir 1% hagvexti á evrusvæðinu á þessu ári og 1,5% hagvexti á næsta ári.

Talsverður munur er á stöðu evruríkjanna. Þannig var 0,8% hagvöxtur í Þýskalandi á fjórðungnum sem var 0,1 prósentustigi meira en spár gerðu ráð fyrir. Á sama tíma var stöðnun í hagkerfi Frakklands þegar væntingar voru um 0,1% hagvöxt, 0,1% samdráttur á Ítalíu og 1,4% samdráttur í Hollandi.