Hagstofa Íslands hefur uppfært hagvaxtartölur fyrir síðasta ár, sem birtar voru á föstudaginn, úr 4,9% hagvexti í 4,6%.
Felst leiðréttingin í staðvirðingu fjárfestingar á fjórða ársfjórðungi ársins, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um sýndu fyrri útreikningar að landsframleiðslan hefði vaxið um 5,2% á ársfjórðungnum miðað við sama tíma árið áður.

Nú segir Hagstofan hins vegar að landsframleiðslan hafi að raungildi vaxið um 4,0% frá sama ársfjórðungi fyrra árs. Vöxtur einkaneyslu yfir árið mældist 4,8%, samneyslu 3,3% og fjárfestingar 2,1%.

Hagvöxturinn á síðasta ári er þó enn nokkuð meiri en ýmsir spáðu, þannig spáði til að mynda hagfræðideild Landsbankans að hann yrði 3,9% á árinu þegar öll kurl væru komin til grafar í lok október.

Hagstofan sjálf gerði ráð fyrir því í byrjun nóvember að landsframleiðslan yxi um 3,8% á árinu 2018, en þjóðhagsspá sem birt var í byrjun júní gerði ráð fyrir 2,9% hagvexti. Um miðjan maí spáði svo Seðlabankinn 3,3% hagvexti í ár.