Hakkarar um allan heim keppa á persónulegu nótunum, á Hakkaþoninu Let's Get Personal sem fram fer  í HR dagana 7. og 8. október að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Tækni og þekking bætir heilbrigðiskerfið en hvernig er hægt að nota tæknina til að gera heilbrigðiskerfið persónulegra, skilvirkara og betra? Þetta er spurning sem hakkarar ætla að takast á við á hakkaþoni í HR næstu helgi.

Þar gefst ungu hugvitsfólki tækifæri á að spreyta sig við að smíða forrit úr heilbrigðisgögnum sem gætu bætt heilbrigði fólks og heilbrigðiskerfið í heild en jafnframt dregið úr óþarfa fjárútlátum. Einnig verður hægt að vinna með samfélagsmiðla- og fjármálagögn sem og öll önnur opin gögn.

Nýta tækifæri persónuverndarlöggjafar

„Okkur langar til að leggja sérstaka áherslu á íslenska heilbrigðiskerfið og hvernig hægt er að gera það skilvirkara með hjálp tækninnar. Með því má hagræða til muna og þannig skapa verðmæti sem eru samfélaginu til góðs,“ segir Freyr Hólm Ketilsson, framkvæmdastjóri íslenska frumkvöðlafyrirtækisins Dattaca Labs sem er er einn af driffjöðrum keppninnar.

Auk Dattaca Labs standa breska tæknifyrirtækið Digi.me, alþjóðlega hakkarasamfélagið Angelhack, ásamt Nýsköpunarmiðstöð Íslands og fleiri íslenskum fyrirtækjum, fyrir keppninni sem fram fer í Háskólanum í Reykjavík dagana 7. og 8. október. Einn tilgangur keppninnar er að nýta frumkvöðla og hugvitsfólk til að nýta þau tækifæri sem ný persónuverndarlöggjöf innan Evrópu (GDPR) veitir í nýtingu gagna. Gert er ráð fyrir að þessi nýja löggjöf taki gildi á næsta ári hér á landi.

Fyrirmynd í persónuvernd

„Ísland hefur mikla möguleika á því að vera fyrirmynd annarra þjóða þegar kemur að persónuvernd og vera þannig leiðandi aðili í þessari byltingu sem við erum einungis að sjá byrjunina á. Með hakkaþoninu gefum við áhugasömum, hvar sem er í heiminum, tækifæri til að byggja ofan á íslenskt hugvit í samræmi við nýja persónuverndarlöggjöf,“ segir Freyr.

Sigurvegarar Hakkaþonsins fá meðal annars farandbikar að gjöf, miða á Startup Iceland og ferð á nýsköpunarráðstefnuna Slush í Helsinki í lok árs. Með því gefst liðinu tækifæri til að tengjast öðrum frumkvöðlum og kynna hugmynd sína enn frekar.

„Í hagnýtingu á persónulegum gögnum felast gríðarleg tækifæri fyrir íslenska frumkvöðla og íslenska nýsköpun. Enginn veit fyrir fram hvaðan mesta snilldin mun koma í þessum efnum og þess vegna styður Nýsköpunarmiðstöð Íslands heilshugar framtak eins og hakkaþonið,“ segir Berglind Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

„Við höfum reynsluna af því að styðja sprota sem verða að stórum fyrirtækjum sem velta hundruðum milljóna, til hagsbóta fyrir land og þjóð. Allt byrjaði á einni lítilli hugmynd og er það von okkar að hún verði til á þessu hakkaþoni.“

Um Dattaca Labs

Dattaca Labs er leiðandi þjónustuveitandi á Íslandi sem vinnur með opinberum stofnunum, frumkvöðlum, sveitarfélögum, innlendum og fjölþjóðlegum fyrirtækjum við að þróa nýjar lausnir og þjónustu á fjölmörgum sviðum, þar á meðal í heilbrigðistækni, fjármálatækni, fjarskiptum og IoT.

Markmið Dattaca Labs er að hjálpa fyrirtækjum og stofnunum að koma auga á og auka verðmæti í samskiptum milli einstaklinga og þjónustuveitanda. Þegar einstaklingar geta átt og stjórnað persónuupplýsingum sínum og veitt leyfi til notkunar á þeim sjálfir, skapast tækifæri til mikillar verðmætaaukningar fyrir samfélagið í heild sinni. Stofnendur Dattaca Labs eru Freyr Hólm Ketilsson og Bala Kamallakharan.