Kynnisferðir/Reykjavik Excursions munu halda áfram akstri til og frá Bláa Lóninu, þó að Bláa lónið hafi, eins og Viðskiptablaðið greindi frá, stofnað eigið fyrirtæki í samstarfi við Hópbíla um ferðir til og frá lóninu. Nokkuð hefur komið fram í fréttum um deilur Gray line og Bláa lónsins í kjölfar ákvörðunar Bláa lónsins, en áður voru fyrirtækin með samning um ferðirnar.

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir að fyrirtækið muni þrátt fyrir deilur Allrahanda - Gray Line og Bláa lónsins, halda áfram góðu samstarfi við Bláa Lónið og bjóða gestum upp á ferðir til og frá Bláa Lóninu bæði til Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.

„Í ljósi umræðu um breytingar á akstri til og frá Bláa Lóninu viljum við taka það fram að við munum halda áfram okkar þjónustu við okkar viðskiptavini sem vilja heimsækja Bláa Lónið,“ segir Björn.

„Áætlanaferðir okkar í Bláa Lónið hafa verið ein af mikilvægustu þáttum í okkar þjónustuframboði enda er Bláa Lónið einn af vinsælustu ferðamannastöðum landsins. Á hverjum degi förum við fjölmargar ferðir á milli Bláa Lónsins og Reykjavíkur og eins til Keflavíkurflugvallar. Þetta er því mjög mikilvæg þjónusta fyrir þá fjölmörgu gesti sem sækja Bláa Lónið heim.“

Kynnisferðir hafa þjónað viðskiptavinum Bláa Lónsins með áætlunarferðum frá árinu 1987. Nokkru síðar hófu Kynnisferðir að keyra milli Keflavíkurflugvallar og Bláa Lónsins.

Björn segir að þær ferðir hafa ávallt verið vinsælar og henti vel þeim sem eru að millilenda á Íslandi. Hann segir ennfremur að á heimasíðu Kynnisferða/Reykjavik Excursions sé því enn, og verði áfram, hægt að finna gott úrval Bláa Lóns ferða.

„Hægt er að bóka aðgöngumiða með rútuferðum sem og einungis stakar rútuferðir til og frá Bláa Lóninu, ætlaðar þeim sem þegar eiga aðgöngumiða í Bláa Lónið. Opið er fyrir bókanir allt að sex mánuði fram í tímann eins og áður."