Íslandsstofa efndi nýlega til alþjóðlegrar samkeppni um áframhaldandi vinnu vegna verkefnisins Ísland allt árið eða Inspired by Iceland sem fól í sér hugmyndir og stefnumörkun vegna kynningar, almannatengsla, hönnunar og framleiðslu markaðsefnis undir merkjum Inspired by Iceland.

Íslandsstofa óskaði eftir tillögum að áframhaldandi markaðsstarfi í janúar 2017 og var samkeppnin opin stofum um heim allan í samræmi við útboðsreglur Ríkiskaupa. Þrír aðilar buðu í verkið, þeirra á meðal alþjóðlegu stofurnar MC Group og TBWA London í samstarfi við Pipar Media í Reykjavík. Var niðurstaða dómnefndar afgerandi; Íslensku auglýsingastofunni og The Brooklyn Brothers í vil, sem munu því halda merkjum Íslands á lofti næstu þrjú árin. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Íslenska auglýsingastofan og The Brooklyn Brothers í Lundúnum hafa unnið að verkefninu í samstarfi við Íslandsstofu síðan árið 2010. Herferðirnar hafa unnið til fjölmargra verðlauna, bæði hér heima og erlendis og er Inspired by Iceland nú orðin verðlaunaðasta ferðaþjónustuherferðin í heiminum. Nú síðast vann Ask Guðmundur fern gullverðlaun á Euro Effie hátíðinni auk Grand prix verðlauna og Iceland Academy hlaut íslensku auglýsingaverðlaunin, Lúðurinn, í flokkunum Herferð ársins og Stafrænar auglýsingar. Auk þess hefur Inspired by Iceland hlotnast sá heiður að vinna tvenn gullverðlaun á Cannes Lion hátíðinni, svo eitthvað sé nefnt.  Í heildina hefur herferðin því unnið yfir 20 gull og Grand Prix verðlaun á síðustu 5 árum, þá ekki talin önnur verðlaun sem herferðin hefur unnið.