Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haldlagði vefþjóna Silk Road fíkniefnamarkaðstorgsins í gagnaveri Thor í Hafnarfirði, sem er rekið af Advania, í haust í fyrra. Áður hafði hún tekið leynileg afrit af innihaldi vefþjónanna. Var það gert að beiðni bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, sem grunaði að vefþjónarnir væru notaðir til að hýsa starfsemi Silk Road.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Christophers Tarbell, fulltrúa FBI og yfirmanns rannsóknarinnar á Silk Road markaðstorginu, sem var lögð fyrir dómstól í New York í byrjun september. Silk Road markaðstorgið notaði gagnaver Thor til að fela slóð sína.

Advania vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. „Við aðstoðum lögregluna í öllum málum sem okkur ber að gera í samræmi við lög, án þess að tjá okkur sérstaklega um einstök mál,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, verkefnastjóri á markaðs- og samskiptasviði Advania.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .