*

miðvikudagur, 12. desember 2018
Innlent 13. febrúar 2018 18:45

„Hálfkjánalegt að þiggja ekki stuðning“

Oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík segir skrýtið af borgarstjóra að tala um nauðsyn samtals en stöðva samtal í Höfða.

Ritstjórn
Eyþór Arnalds er oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar
Birgir Ísl. Gunnarsson

Eyþór Arnalds oddiviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík segir aldrei hafa borið skugga á samtöl sín við opinberar stofnanir fyrr en nú, en eins og greint var frá í fréttum í morgun rak Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Eyþór á dyr á fundi fulltrúa borgarinnar og þingmanna Reykjavíkur í Höfða í gær.

„Þannig var að fyrsti þingmaður Reykjavíkur hefur verið að skipuleggja kjördæmaviku með þingmönnum kjördæmanna tveggja og bauð hann mér að koma með, eins og oft er með oddvita samflokksins í borginni, til að hitta stofnanir og fyrirtæki,“ segir Eyþór í samtali við Viðskiptablaðið, en hann ræddi einnig um mögulega úrsögn sína úr stjórn Árvakurs.

„Hann var búinn að bjóða mér með sér á nokkra staði og hann bað mig um að koma með sér í Höfða til að hitta borgarfulltrúana. Ég hef sjálfur verið að hitta fjölmarga embættismenn opinberra stofnana og mér hefur alls staðar verið tekið vel. Aldrei borið skugga á það. En framkvæmdastjóri borgarinnar, Dagur B. Eggertsson, vildi ekki þiggja þessa aðstoð."

Dagur tali oft um nauðsyn samtals

Eyþór segir það vissulega markmið sitt að vinna kosningarnar í vor en líklegustu borgarstjórnarefnin eru að vænta má fjögur ár til viðbótar undir stjórn Dags eða Eyþór sem oddviti stærsta flokksins eins og sjá má í nýlegri könnun Viðskiptablaðsins. „Markmiðið er að vinna þessar kosningar, ég hef bæði verið í minnihluta og meirihluta í Árborg, fyrst fjögur ár í minnihluta, en núna höfum við ekki tíma til að bíða eftir öðru kjörtímabili.“

Spurður hvort borgarstjóri sé að reyna að leggja stein í götu sína í kosningabaráttunni með því að vísa honuma fundi segir Eyþór að með þessu sé fyrst og fremst verið að skaða hagsmuni Reykvíkinga.

„Mér fannst þetta hálfkjánalegt að þiggja ekki stuðning. Hagsmunir Reykjavíkur er að það sé gott samtal milli ríkis og borgar, og þá myndi ég halda að það væri mjög gagnlegt fyrir borgina að ég legði þeim lið," segir Eyþór.

„Með þessu er Dagur að koma í veg fyrir eðlilegt samtal milli nýkjörins oddvita borgarstjórnarflokksins og þingmanna kjördæmisins. Það finnst mér skrýtið frá aðila sem talar oft um nauðsyn samtals, að vilja ekki þetta samtal.“