Gert er ráð fyrir 774,2 milljóna króna fjárheimild til embættis héraðssaksóknara samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi. Áætlað er að embættið hefji starfsemi 1. janúar 2016 í samræmi við breytta skipan ákæruvalds í landinu. Við þá breytingu verður embætti sérstaks saksóknara lagt niður.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að starfsmenn embættisins verði fimmtíu talsins og komi frá embætti sérstaks saksóknara, Ríkissaksóknara, Ríkislögreglustjóra, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og Lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Framlagið skýrist af þremur þáttum, en í fyrsta lagi er gert ráð fyrir 502,7 milljóna króna framlagi vegna kostnaðar við stofnun embættisins. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að samtals 242,4 milljóna króna fjárheimildir millifærist til embættisins vegna verkefna sem færast frá öðrum stofnunum innan málaflokksins. Í þriðja lagi er svo lögð til 2,4 milljóna króna lækkun til að mæta markmiðum um aðhald í útgjaldaramma innanríkisráðuneytisins.