Ásta Þórarinsdóttir var skipuð sem stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins í byrjun árs en hún er menntuð í hagfræði og hefur meistaragráðu í fjárfestingastjórnun frá Cass Business School í London. Stuttu eftir útskrift starfaði hún í bankaeftirliti Seðlabankans og kom þannig að því þegar Fjármálaeftirlitið var stofnað en frá árinu 2007 hefur Ásta unnið að nýsköpun í heilbrigðisþjónustu í gegnum fyrirtækin Eva Consortium og Sinnum.

Ekki lengur bara bakssýnisspegilinn

Hún segir fyrstu mánuðina hafa gengið vel í störfum sínum fyrir Fjármálaeftirlitið. „Það má eiginlega segja að það séu svolítið nýir tímar fram undan hjá Fjármálaeftirlitinu og kannski fjármálakerfinu af því að við getum hætt að hafa svona mikinn fókus á baksýnisspegilinn,“ segir hún. „Það er margt spennandi fram undan, t.a.m. er verið að innleiða nýjar reglur frá Evrópska efnahagssvæðinu. Auðvitað setja þær fókus aftur í baksýnisspegilinn þar sem þetta var alþjóðleg kreppa og mikið af því sem er verið að innleiða núna dregur úr líkum á því að slíkt gerist aftur. Engu að síður þá er alltaf gaman að móta eitthvað nýtt. Það er alltaf mjög gaman að taka þátt í uppbyggingu. Mér finnst ég finna það að það eru allir mjög spenntir fyrir því að allavega halla hurðinni á fortíðina og kreppuna og fara að byggja upp traust og gera nýja hluti.“

Eins og áður sagði kom Ásta að stofnun Fjármálaeftirlitsins og hefur því fylgst vel með þróun þess í gegnum árin. Spurð að því hvernig áherslur við fjármálaeftirlit hér á landi hafa breyst á síðustu árum segir hún að breytingarnar séu að einhverju leyti óræðar. „Ég er enn að reyna að átta mig á því hvort ég sé að koma inn í eftirlitsumhverfið eins og það var fyrir tíu árum þegar ég var þar. Að sumu leyti finnst mér það en að öðru leyti finnst mér að dýptin í eftirlitinu hafi aukist. Það hefur nátt­ úrulega komið með auknu fjármagni í eftirlitið og mjög vel menntuðu fólki. Þetta er líka í takt við þróunina erlendis. Þess vegna var það mjög gott að fá fulltrúa frá danska eftirlitinu og AGS sem tók út eftirlitið hér fyrir ekkert svo löngu síðan og gaf okkur góð ráð. Það var líka gott fyrir aðilana sem eru undir eftirlitinu að hlusta á þetta,“ segir Ásta en þar vísar hún til ráðstefnu á vegum FME um hlutverk og stefnu þess sem var haldin nýlega.

Nánar er rætt við Ástu í Áhrifakonum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .