Halldór Bjarkar Lúðvígsson framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion mun láta af störfum á næstu dögum. Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion hefur staðfest þetta í samtali við Viðskiptablaðið.

Halldór starfaði á árunum 2005 til 2008 á útlánasviði Kaupings. Eftir hrun tók hann svo við framkvæmdastjórn fyrirtækjaþjónustu Arion banka, en svo hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion síðan 2011.

Halldór Bjarkar hefur verið vitni í málum sérstaks saksóknara gegn stjórnendum Kaupþings, meðal annars í Chesterfieldmálinu svokallaða, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í vikunni voru stjórnendurnir sýknaðir í málinu, þar sem þeir voru sakaðir um umboðssvik.

Í dómi málsins er sérstaklega snert á því að ósamræmi hafi verið á milli skýrslugjafar Halldórs Bjarkars á meðan á rannsókn málsins stóð og svo hins vegar fyrir dómi, og að þetta ósamræmi verði að hafa í huga þegar sönnunargildi frásagnar Halldórs er metið.