Landsnet hefur ráðið Halldór Halldórsson í starf öryggisstjóra og mun hann starfa á Stjórnunarsviði við áframhaldandi uppbyggingu öryggismála og öryggismenningar hjá Landsneti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Halldór starfaði áður sem öryggistjóri hjá ISAL í Straumsvík, en þar var hann leiðtogi í öryggismálum og sá um innleiðingu ferla, samskipti við Vinnueftirlitið og móðurfélagið Rio Tinto Alcan vegna öryggismála. Einnig bar hann m.a. ábyrgð á starfssemi slökkviliðisins, öryggisgæslu og hafnarvernd á svæðinu.

„Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við þau verkefni sem mér hefur verið falið hjá Landsneti. Landsnet er traust og framúrskarandi fyrirtæki sem leggur metnað sinn í að skapa öryggismenningu, gott starfsumhverfi og stefnir markvist að því að fyrirbyggja slys og óhöpp. Þessi gildi fara mjög vel saman við mín eigin og ég er viss um að þekking mín og reynsla á eftir að nýtast vel til að viðhalda því góða starfi sem þegar hefur verið unnið hjá Landsneti,“ er haft eftir Halldóri í tilkynningu Landsnets.

Halldór er menntaður rafvirki og vottaður alþjóðlegur verkefnastjóri frá Háskóla Íslands. Auk þess hefur hann Evrópuvottun í Safety management frá Bretlandi og hefur lokið diploma námi i Rekstrar- og viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Halldór hefur einnig setið fjölmörg námskeið sem snúa að öryggismálum, leiðtogaþjálfun, uppbyggingu neyðarvarna, neyðarstjórnun og þjálfun neyðarviðbragða.