Bókfærðar eignir Þjóðkirkjusöfnuða námu 30,7 milljörðum króna í lok árs 2014. Skuldir söfnuðanna námu 3,2 milljörðum og þar af voru langtímaskuldir um 2,5 milljarðar. Eigið fé söfnuðanna var því um 27,5 milljarðar

Hallgrímssókn er sú sókn sem átti mestar eignir í lok árs 2014 ef sérsjóður vegna Hallgrímskirkju er tekinn með í reikninginn. Sé það gert eru eignir sóknarinnar um 1,4 milljarðar króna. Lögmannshlíðarsókn á Akureyri er í öðru sæti en eignir hennar voru færðar á um milljarð króna í lok árs 2014.

Grafarvogssókn er hins vegar skuldsettasta sókn landsins. Langtímaskuldir Grafarvogssóknar námu 615 milljónum í lok árs 2014. Að sögn Guðmundar Þórs Guð­mundssonar, sviðsstjóra lögfræðisviðs Þjóðkirkjunnar, eru kirkjubyggingar og safnaðarheimili yfirleitt færð til bókar í efnahagsreikningum söfnuðanna. Guð­mundur segir að almenna reglan sé sú að kirkjubyggingarnar séu ekki veðsettar. Flestar lánastofnanir vilji ekki taka veð í svo sérhæfðum byggingum sem ekki er gerlegt að selja á almennum markaði.

„Hins vegar eru safnaðarheimilin frekar veðsett. En stundum eru þau órjúfanlegur þáttur af kirkjubyggingunni, þannig að þetta er oft dálítið snúið,“ segir Guðmundur.

Samkvæmt samantekt Ríkisendurskoðunar námu eignir Biskupsstofu, sjóða í umsjá kirkjunnar og annarra stofnana kirkjunnar samtals um 3,6 millj­ örðum króna í lok árs 2013 og var eigið féð um 3,2 milljarðar. Langmestar þessara eigna voru í Kirkjumálasjóði, en hann átti fasteignir, jarðir, áhættufjármuni og aðrar eignir fyrir um 3,4 milljarða króna. Að því gefnu að engin stökkbreyting hafi orðið í eignum sjóðsins frá 2013 til 2014 má því ætla að eigið fé Þjóðkirkjunnar og söfnuða hennar hafi verið bókfært á um 30 milljarða króna árið 2014.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .