*

laugardagur, 23. febrúar 2019
Innlent 16. janúar 2018 13:00

Hámarki náð í þjónustuafgangi

Velta erlendra kreditkorta dróst saman í nóvember og desember í fyrsta skipti frá árinu 2010 en Íslendingar eyða meira.

Ritstjórn

Ef marka má þróun kortaveltu er farið að draga úr vexti einkaneyslu á ný að því er Greining Íslandsbanka segir frá. Það er þrátt fyrir að landsmenn hafi gert töluvert betur við sig í síðastliðnum jólamánuði en ári fyrr. Nam kreditkortaveltan í desember ríflega 92 milljörðum króna sem jafngildir 6,5% vexti í krónum talið milli ára, en að raunvirði jókst veltan um 7,5%. 

Á þeim mælikvarða hefur veltan ekki verið hægari þó frá því í febrúar síðastliðnu. Telur bankinn þetta gefa vísbendingu um að hámarki í þjónustuafgangi sé náð og að hann verði minni í ár en í fyrra.

Enn er þó allmyndarlegur vöxtur, sérstaklega erlendis, en hins vegar hefur verulega hægt á vexti kortaveltu vegna erlendra ferðamanna. Nam hún í desember 14,3 milljörðum króna, sem er 4,2% samdráttur í krónum talið milli ára. Er þetta annar mánuðurinn í röð sem velta erlendra korta dregst saman eftir linnulausan vöxt frá síðasta fjórðungi ársins 2010.

Helmingi minna gjaldeyrisinnflæði

Bendir bankinn á í því samhengi að gjaldeyrisinnflæði vegna kortaveltu hafi verið helmingi minni á síðasta fjórðungi ársins 2017 en á sama tíma ári fyrr. Nam vöxturinn rúmlega 50% árið 2016, en árinu 2017 jókst veltan um ríflega 12%. Fjölgun ferðamanna árið 2016 nam 40% meðan hún nam 24% árið 2017, svo það virðist sem kortavelta á hvern ferðamann dragist talsvert saman á milli ára.

Óx kortavelta Íslendinga á sama tíma innanlands um 4,8% á milli ára, en veltan utan landsteinanna óx um 23,5%, sem kemur til af hvort tveggja meiri ferðalögum erlendis og aukinni netverslun.

Að raungildi jókst einkaneyslan um 7,7% á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs frá sama tímabili árið áður, sem er hraðari vöxtur en verið hefur í rúman áratug. Þó eru vísbendingar um að vöxturinn hafi verið heldur hægari á síðasta fjórðungi ársins, eða um 10,8% á móti 11,7% hina ársfjórðungana.

Þykir greiningardeildinni það benda til þess að hámark einkaneysluvaxtarins kunni að vera að baki, sem rími við þróun kaupmáttar sem vaxið hefur hægar á nýliðnu ári en árið áður.