Hamborgarabúlla Tómasar var á þriðjudaginn opnuð í Kaupmannahöfn en það er fjórða landið þar sem búllan er nú starfrækt. Fyrsta daginn seldust yfir 1.200 hamborgarar og 300-400 manns biðu í röð í tvo til þrjá tíma segir Tómas Tómasson, stofnandi Hamborgarabúllunnar.

Tómas segir Íslendinga hafa mætt á staðinn en margir hafi ákveðið að koma næsta dag vegna biðraðar. Í augnablikinu eru sex búllur opnar á Íslandi og sú sjöunda verður opnuð 1. september í Kópavogi. Auk þess eru tvær í London og ein nýopnuð í Berlín.

Búið er að gera samkomulag um að opna aðra í Ósló en það gæti gerst með haustinu, að sögn Tómasar. Hann segir það vera drauminn að opna staði utan Evrópu.