Hampidjan USA í Seattle, sem er dótturfyrirtæki í 100% eigu Hampiðjunnar hf., hefur keypt 65% hlut í netaverkstæðinu Swan Net L.L.C í Seattle USA.

Þrír stofnendur ásamt einum smærri meðeiganda hafa verið eigendur Swan Net frá stofnun þess 1995 og keypti Hampiðjan hlut tveggja þeirra í nánu samráði við þriðja aðaleigandann og framkvæmdastjórann, Seamus Melly. Í tilkynningu frá Hampiðjunni til Kauphallar segir Seamus muni áfram eiga sinn upprunalega hlut sem er 32,5%. Kaupverðið var 2.3 milljónir dollara, eða um 260 milljónir króna, og hefur það verið greitt að fullu.

„Við erum sérstaklega ánægð með að fá Seamus Melly til liðs við okkur enda nýtur hann mikillar virðingar á þessu svæði fyrir framleiðslu og uppsetningu á vönduðum veiðarfærum og fyrir góða þjónustu sem er afar mikilvæg á þessum markaði.  Seamus hefur sýnt það og sannað að hann er góður rekstrarmaður og undir stjórn hans hefur rekstur Swan Net vaxið og dafnað og skilað góðum hagnaði undanfarin mörg ár,“ segir Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar meðal annars í tilkynningu.