Hampiðjan í Ástralíu hefur samið um sölu á 120 rækjutrollum til Austral Fisheries, eins stærsta útgerðarfyrirtækis í Ástralíu. Hampiðjan opnaði útibú í Ástralíu fyrir tveimur árum, en eru þegar orðnir leiðandi í sölu á veiðifærum í áströlskum sjávarútvegi. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins .

Þorsteinn Benediktsson, framkvæmdastjóri Hampidjan Australia, segir í samtali við blaðið að Hampiðjan selji veiðarfæri um alla Ástralíu og að allar stærstu útgerðirnar versli eingöngu við þá. Fyrirtækið er að hans sögn orðið það stærsta fyrirtækið á markaði í Ástralíu með fiskitroll, rækjutroll og allt sem tengist togveiðfarfærum.

Jafnframt segir Þorsteinn að það séu tækifæri fyrir Hampiðjuna í námu-, olíu- og gasiðnaðinum. Fyrirtækið býður til að mynda upp á svokallaða ofurkaðla, DynIce, sem eru framleiddir úr dyneema-efni en það er sterkara en stál.