Í bréfi sem Hanna Birna Kristjánsdóttir sendi stuðningsmönnum sínum í gærkvöldi tilkynnti hún að hún ætli ekki að gefa kost á sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi.

Í bréfinu segist hún hafa verið hvött til þess að bjóða sig fram en að angar lekamálsins séu enn til staðar og hún sé því ekki tilbúin að „leggja enn einn slaginn um það mál á flokkinn, mig eða mína.“ Hún segist ekki vilja að persóna sín hafi áhrif á vilja landsfundafulltrúa og ætli því að standa utan kjörs að þessu sinni.

Hún ætlar ekki að stíga úr hinu pólitíska sviðsljósi en hún segist ætla að halda áfram að berjast fyrir betra Íslandi.