Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, mun taka við keflinu af Sigurði Hannessyni, sem framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku banka. Þetta staðfestir Hannes Frímann í samtali Viðskiptablaðið, en hann tekur fram að þetta sé að því gefnu að samruni Kviku og Virðingar gangi í gegn.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun Marínó Örn Tryggvason, aðstoðarforstjóri Kviku gegna starfinu þangað til að sameiningin gengur í gegn. Sigurður Hannesson lét af störfum hjá Kviku í síðasta mánuði.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Fjármálaeftirlitið geti tekið allt frá einum til sex mánaða að taka afstöðu til kaupanna. Vegna samrunans er til skoðunar að Kvika banki gangi frá kaupum á ÖLDU sjóðum, en áður hafði verið greint frá því að Virðing myndi kaupa allt hlutafé ALDA sjóða.