Líftæknifélagið WuXi NextCODE hefur ráðið Hannes Smárason sem framkvæmdastjóra félagsins, en hann stofnaði fyrirtækið út frá Íslenskri erfðagreiningu.

Árið 2013 kom Hannes Smárason að stofnun fyrirtækisins NextCode en það var stofnað sem dótturfélag Íslenskrar erfðagreiningar til að selja sjúkdómsgreiningar til lækna og sjúkrahúsa í Bandaríkjunum.

Jafnframt hafði hann yfirumsjón um það þegar félagið var sameinað WuXi Genome Center og félagið WuXi NextCode var stofnað. Gerðist það í kjölfar þess að félagið WuXi AppTec keypti NextCODE árið 2015 á 8,5 milljarða íslenskra króna, en bæði félögin voru í sams konar rekstri.

Félagið er nú með starfsemi í Shanghai í Kína og Massachusetts í Bandaríkjunum fyrir utan starfsemi sína hér á landi.

Í frétt prnewswire.com um málið kemur jafnframt fram að aðstoðarforstjórar Wuxi AppTec, John Long og Alex Fowkes, hafa tekið að sér fjármálastjórn og stjórn á daglegum rekstri fyrirtækisins.