Vörur beint frá bónda eða beint af býli hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár og um það er stuttlega fjallað hér í viðtalinu. Aðspurður um frekari vaxtarmöguleika þar telur Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, að sá hluti landbúnaðarins sé að festa sig í sessi við hlið hinnar hefðbundnu afurðarsetningu.

„Að kaupa beint frá býli skapar verðmæt tengsl á milli bóndans og neytandans. Þetta tryggir betur gæði kjötsins og veitir bændum gott aðhald,“ segir Haraldur í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Ég hef orðið var við það að bæði afurðarstöðvar og verslanir huga ekki nógu vel að gæðum kjötsins sem þýðir að lokum að neytandinn verður hundóánægður. Það eru þó til margir verslunarmenn sem huga vel að þessu og leggja áherslu á mikil gæði. Þeim er annt um velgengni bænda enda tryggir það þeim góðar vörur og að lokum ánægða viðskiptavini. Á sama tíma erum við með Samtök verslunar og þjónustu sem halda að allt sé að farast af því að þau fá ekki að flytja inn kjötvörur. Okkur vantar ekkert meiri innflutning á kjöti, okkur vantar meiri fagmennsku. Að kaupa vörur beint frá býli hefur lyft grettistaki í því að skapa góð tengsl milli neytenda og bænda, fyrir utan það hvað það er skemmtilegt að koma í sveitina. Þeir sem ala og framleiða búvöru með bein viðskipti í huga leggja sig enn meira fram því slík vara er sérstök gæðavara.“

Í viðtali við Viðskiptablaðið fjallar Haraldur um aðildarviðræðurnar að ESB og störf íslenskra embættismanna, stöðu bænda almennt auk þess sem hann svarar spurningum um umdeilda tolla og ríkisstyrki, framtíð landbúnaðarins og þess utan hótelrekstur samtakanna sem hefur verið til umfjöllunar að undanförnu.