*

föstudagur, 22. september 2017
Erlent 11. júlí 2012 10:58

Harmleikur í nágrenni við Bakkavararbróður

Ein af ríkustu konum Bretlands fannst látin á heimili sínu í vikunni. Talið er að banamein hennar af verið ofneysla eiturlyfja.

Ritstjórn

Milljarðamæringurinn Hans Kristian Rausing var handtekinn á mánudagskvöld og yfirheyrður vegna andláts konu hans. Lík konunnar fannst á heimili hjónanna í Cadogan Place 62 í auðmannahverfinu Knightsbridge í Bretlandi. Þetta er eitt af fínni hverfum Lundúna en þar býr eitt ríkasta fólk landsins. Nokkrum húsum frá húsinu sem líkið fannst býr Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar, og kona hans. Þau búa í Cadogan Place 68. 

Eins og breskir fjölmiðlar hafa greint frá í gær fannst konan, Eva Rausing, látin á heimili sínu í gær. Hún var 48 ára. Talið er að banamein hennar hafi verið of stór skammtur af eiturlyfjum. 

Þau hjónin voru með auðugustu einstaklingum Bretlands. Eva var dóttir auðugs fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Pepsi en Hans Kristian Rausing er afabarn annars af stofnendum sænska fyrirtækisins Tetra Pak og framleiðir mjólkurfernur. Faðir Hans Kristians Rausing seldi fyrirtækið fyrir jafnvirði 3,5 milljarða punda árið 1995 og hefur engin tengsl við fyrirtækið í dag. Auður Rausing-fjölskyldunnar er talinn í dag nema um 4,5 milljörðum punda, jafnvirði um 900 milljarða íslenskra króna. 

Rausing-hjónin hafa verið gift í tæp tuttugu ár og verið áberandi í hópi auðugra einstaklinga í Bretlandi. Þau virðast samkvæmt umfjöllun netútgáfu breska dagblaðsins Daily Mail lengi hafa átt við eiturlyfjavanda að stríða. Þegar Hans Kristian Rausing var handtekinn á mánudag munu eiturlyf hafa fundist í fórum hans. Þá fannst heróín og krakk á heimili þeirra við húsleit lögreglu í vikunni. 

Talið er að markaðsverðmæti húss Rausing-hjónanna nemi 70 milljónum punda, jafnvirði 14 milljarða íslenskra króna. Þau eiga auk þess villu á Barbados og íbúð í skemmtiferðaskipinu The World. Auðkýfingar nota skipið til að koma skattpeninga undan kastljósi yfirvalda. 

Cadogan Place í Knightsbridge-hverfinu í Lundúnum. Íbúðir í húsunum kosta nokkra milljarða króna.