„Það er öllum mönnum ljóst sem þekkja til eðlilegs fyrirtækjareksturs að ef þú ert að borga rúmlega þriðjung tekna þinna í fasteignagjöld þá stendur reksturinn ekki undir sér,“ segir Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu tónlistarhúss, í samtali við Fréttablaðið .

Þar er greint frá því að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi hafnað kröfu Hörpu um að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar frá maí 2012 verði ógildur, en samkvæmt úrskurðinum á Harpa að greiða um 380 milljónir króna í fasteignagjöld í ár. Stjórn Hörpu taldi að fasteignamat hússins ætti að vera mun lægra, eða sjö milljarðar í stað sautján milljarða, þar sem það ætti að vera byggt á rekstrarkostnaði hússins. Á það var ekki fallist.

„Það er algjörlega ljóst að þetta er vandamál eigenda hússins. Það sjá það allir Íslendingar að aðsókn í húsið er að aukast, það eru um 480 tónleikar á ári og það er orðið miðlægt í menningarlífi þjóðarinnar. Eigendurnir sjá það og hljóta því að vilja leggja húsinu lið ef þess þarf,“ segir Halldór.