Harpa tónlistar- og ráðstefnuhöll ohf, rekstrarfélag Hörpunnar, tapar 1,5 milljarði króna á árinu 2015, en eftir að rúmlega eins milljarðs króna framlag ríkis og borgar er komið til vegna fjármögnunar fasteignar og búnaðar nemur tapið 443 milljónum króna.

Heildartapið fyrir 1.069 milljón króna framlag ríkis og borgar er þá 1.512 milljónir króna. Skiptist 3.272 milljón króna hlutafé í félaginu þannig að 46% er í eigu Reykjavíkurborgar og 54% í eigu ríkisins.

Þar til viðbótar kemur 170 milljón króna rekstrarframlag eigenda

Námu rekstrartekjur 1.066 milljónum króna, en þar til viðbótar bætast svo 170 milljónir króna rekstrarframlag ríkis og borgar ofan á fjármögnunarframlagið áðurnefnda.

Þó það sé tekið með er hreint rekstrartap því 452 milljónir króna, en EBITDA er 113 milljón króna tap. Hrein fjármagnsgjöld eru 1.060 milljón krónur.

Tekjur og gjöld

Skiptast tekjurnar þannig að leigutekjur gáfu 181 milljón króna, Viðburðir og ráðstefnur gáfu 597 milljón krónur, rekstrarleyfissamningar gáfu 214 milljónum og ýmsar aðrar tekjur námu 74 milljón krónum.

Rekstrargjöld skiptust þannig að fasteignaskatturinn nam 135 milljón krónum, annar húsnæðiskostnaður nam 265 milljón krónum. Laun- og launatengd gjöld námu 462 milljón krónum, aðkeypt þjónusta nam 246 milljón krónum en annar rekstrarkostnaður nam 242 milljón krónum.

Tapið minnkaði milli ára

Tap ársins minnkaði milli ára en heildartapið eftir framlag ríkis og borgar var 548 milljónir króna árið 2014.

Eignir félagsins nema samtals 20.375 milljónum króna, en þar af telst fasteignin sjálf vera andvirði 17.118 milljóna króna virði. Lækkuðu eignirnar milli ára en árið 2014 töldust þær vera 20.570 milljónir króna.

Heildarskuldir Hörpu námu 20.300 milljónum króna en handbært fé í árslok voru 136 milljónir króna

Mikil áhrif Hæstaréttardóms

Segir í skýringum að rekstur Hörpu hafi verið óhagfelldari en gert hafi verið í upphafi ráð fyrir, sé það einkum vegna hærri fasteignagjalda. Í febrúar síðastliðnum féll svo Hæstaréttardómur rekstrarfélaginu í hag, sem kveður á um að fasteignamat skuli byggt á rekstrarvirði hússins en ekki byggingarkostnaði eins og Þjóðskrá hafi miðað við frá árinu 2011.

Munu fasteignagjöld lækka afturvirkt af þeim sökum, þó of snemmt sé að segja hver upphæðin muni vera segir að líklega gæti það numið 950 milljónum króna án vaxta.

Segir að ekki sé búið að færa áætluð áhrif þessarar niðurstöðu í rekstrarreikninginn fyrir árin 2011 til 2014, en hins vegar eru áætluð áhrif vegna ársins 2015 sett inn og nema þau 242 milljónum króna.

„Í ljósi þessarar stöðu er það mat stjórnenda að samstæðan geti staðið við allar sínar skuldbindingar sem falla til næstu 12 mánuði. Ef mat stjórnenda gengur ekki eftir ríkir verulegur vafi um rekstrarhæfi samstæðunnar,“ segir í ársreikningnum.