*

föstudagur, 22. júní 2018
Innlent 16. júní 2017 14:32

Harpan tekur upp aðgangsstýringu

Ráðist hefur verið í breytingar á starfsemi Hörpu til að sporna við því að gestir leggi sig í húsinu eða smyrji sér samlokur.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa hyggst mun hefja aðgangsstýringu um tiltekin svæði hússins. Mun aðgangsstýringin fara þannig fram að boðið verður upp á skipulagðar skoðunarferðir um húsið gegn gjaldi. Einnig verður tekið hóflegt gjald fyrir notkun á snyrtingum í húsinu fyrir aðra en þá sem eiga erindi á viðburði í húsinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hörpu.

Að sögn Svanhildar Konráðsdóttur forstjóra Hörpu er ástæðan fyrir breytingunum sú að gestir hússins hafi nýtt sér opin rými sem nokkurs konar umferðarmiðstöð eða hvíldarstað. Þar leggist gestir jafnvel til hvílu og smyrja sér samlokur víðsvegar í húsinu. Þetta finnst stjórnendum Hörpu ekki hæfa hlutverki og yfirbragði hússins og telja þetta draga úr upplifun allra sem sækja húsið heim. Hún fangar því hve vinsæll viðkomustaður ferðamanna og hve góða umsögn húsið fær, hins vegar vilja stjórnendur tryggja að Harpan standi áfram undir þeim góða vitnisburði og allur bragur sé í samræmi við það mikilvæga menningarlega hlutverk sem það gegnir.

„Við munum bjóða upp á skoðunarferðir með leiðsögn um húsið á klukkutíma fresti yfir daginn. Þá býðst fólki að fara inn á lokuð svæði og fá mun ítarlegri og betri kynningu á húsinu og starfsemi þess. Í ofanálag eru hér fimm tónlistarviðburðir og leiksýningar daglega í Eldborg, Norðurljósum og Kaldalóni sem allir miða að ferðamönnum,“ segir Svanhildur að lokum.

Munu breytingarnar taka gildi þann 19. júní næstkomandi og standa yfir til 26. ágúst og miða að því að auka ánægju þeirra sem koma til að skoða húsið og vilja njóta þess sem allra best í sumar.