Harper Lee er nú látin. Hún er rithöfundurinn á bak við bækurnar 'To Kill A Mockingbird' og 'Go Set A Watchman', en sú fyrrnefnda er talin til betri skáldsagna sem skrifaðar hafa verið á enskri tungu.

'To Kill A Mockingbird' var gefin út árið 1960 og hefur síðan þá selst í fjörutíu milljónum eintaka. Salan á þeirri bók einni hefur skilað henni einhverjum 4,5 milljörðum króna. Þrátt fyrir mikinn auð hafði Harper Lee ekki mikið við hann að gera. Helst til var hún vís til að gefa féð til kirkjunnar í bænum þar sem hún ólst upp.

Titill bókarinnar hefur verið þýddur sem „Að drepa hermikráku”, en hún fjallar um unga stúlku sem kölluð er Scout Finch og verður vitni að kynþáttamismunun í suðurríkjum Bandaríkjanna í kreppunni miklu.

Þá var einnig gefin út á síðasta ári bókin 'Go Set A Watchman'. Hún er eins konar framhald af 'To Kill A Mockingbird', en þar er fjallað um persónurnar í fyrri bókinni mörgum árum síðar. Bókin hlaut mismunandi dóma gagnrýnenda, en seldi yfir milljón eintök á árinu.