Harvard-háskóli, einn virtasti háskóli heims, hefur varið auknu fé úr stofnfjársjóði sínum til möndluræktunar nálægt Hillston í New South Wales í Ástralíu. Skólinn bætti nýverið 235 ekrum af ræktunarlandi við eignasafn sitt á svæðinu, sem telur nú um 1.480 ekrur, að því er kemur fram í umfjöllun Wall Street Journal .

Möndlurækt hefur verið líkt við gullæði og er í frétt WSJ sagður heppilegur fjárfestingarkostur fyrir langtímafjárfesta á borð við lífeyrissjóði og háskólasjóði.

Um 80% af möndlum í heiminum eru framleiddar í Kaliforníu í Bandaríkjunum og hefur möndlurækt skilað hrávörufjárfestum góðri ávöxtun undanfarin ár. Sveiflukennt veðurfar í Kaliforníu undanfarna mánuði hefur hins vegar þrýst útflutningsverðinu á möndlum upp í tveggja ára hámark. Spáð er minni framleiðslu á möndlum í Kaliforníu í ár sem og breytingum í veðurfari, en fylkið hefur einnig þurft að glíma við þurrka undanfarin ár.

Samhliða þessu hefur eftirspurn eftir möndlum farið vaxandi með breytingum í neysluhegðun og neysluvitund fólks um allan heim, en möndlur eru hollar og próteinríkar. Framleiðsla á möndluafurðum á borð við möndlumjólk hefur einnig færst í aukana undanfarin ár.

Samkvæmt frétt WSJ útskýra þessir þættir meðal annars af hverju fjársterkir einstaklingar og sjóðir – líkt og stofnsjóður Harvard-háskóla – eru að moka fjármagni í jarðir og gróðursetningu trjáa um þessar mundir, sérstaklega í suðausturhluta Ástralíu. Þar eru aðstæður sagðar að mörgu leyti kjörnar til möndluræktunar, auk þess sem tekjur af möndlurækt á því svæði gefur 40-sinnum meiri tekjur en kornrækt. Spáð er að möndluframleiðsla í Ástralíu muni vaxa um 9% í ár.