Allt útlit er fyrir að fellibylurinn Harvey verði sá öflugasti sem ryðst yfir Bandaríkin í 12 ár samkvæmt frétt Washington Post .

Talið er að um 232 þúsund heimili í Texas ríki séu í hættu. Nái fellibylurinn þriðja stigi gæti kostnaður við endurbyggingu húsa sem fyrir honum verða numið allt að 39,6 milljörðum dollara samkvæmt greiningarfyrirtækinu CoreLogic Inc .

Flest heimili eru í hættu á svæðinu í kring um Houston en þar eru rúmlega 118 þúsund heimili í hættu ná Harvey þriðja stigi.

Fellibylurinn er sá fyrsti sem skellur á Texas ríki frá árinu 2008 þegar fellibylurinn Ike reið yfir. Námu skemmdir af völdum Ike 29,5 milljörðum dollara samkvæmt frétt Bloomberg .