Allir skólar landsins á háskólastigi munu kynna nám sitt á Háskóladeginum sem verður haldinn 1. mars næstkomandi.

Björg Magnúsdóttir, verkefnastjóri Háskóladagsins, segir að dagurinn sé ætlaður til þess að allir stúdentar, hvort sem þeir koma beint úr framhaldsskóla eða af vinnumarkaði, geti kynnt sér allar námsleiðir sem eru í boði. Þetta er í 10. sinn sem dagurinn er haldinn. „Þetta er haldið á þremur stöðum, í HÍ, HR og Listaháskólanum. Svo verður dagskrá í Háskólabíói líka,“ útskýrir Björg.

Hún bætir því við að opinberu háskólarnir verði með kynningu í HÍ, Bifröst með aðstöðu í HR og Listaháskólinn verði bæði í HR en einnig í eigin húsnæði. Björg var ráðin sem verkefnastjóri Háskóladagsins eftir áramót og segir undirbúning kominn í fullan gang. Undirbúningur og fundarhöld hafa þó staðið yfir allt frá því að Háskóladeginum lauk í fyrra.