*

mánudagur, 12. nóvember 2018
Innlent 11. september 2018 09:18

Háskólamenntuðum fjölgað um 14 prósentustig

Háskólamenntuðum hefur fjölgað um 14 prósentustig á tíu árum frá 2007 og stendur Ísland jafnfætis Norðurlöndum í fjölda háskólamenntaðra.

Ritstjórn
Háskóli Íslands
Haraldur Guðjónsson

Árleg skýrsla OECD um menntatölfræði, Education at a Glance 2018 er komin út. Í skýrslunni er að finna margvíslegar upplýsingar um stöðu íslenska skólakerfisins, menntunarstig þjóðarinnar, fjármögnun skóla og skipulag skólastarfs. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins

Meðal þess sem fram kemur um íslenskt menntakerfi er að á Íslandi eru fleiri karlar án framhaldsskólamenntunar á aldrinum 25-34 ára en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Háskólamenntuðum hefur fjölgað um 14 prósentustig á tíu árum frá 2007 og stendur Ísland jafnfætis Norðurlöndum í fjölda háskólamenntaðra.

Hlutfall fólks sem er hvorki í vinnu, né í skóla eða starfsþjálfun er lágt í öllum aldurshópum og stendur Ísland að því leyti best að vígi í samanburði við önnur OECD lönd. 

Á árabilinu frá 2010 til 2015 var aukningin á útgjöldum á hvern nemanda til grunnskóla og framhaldsskóla um 14 prósentustig og á háskólastigi var aukningin um 27 prósentustig þegar tekið er mið af fjölda nemenda. Á Íslandi var aukningin talsvert meiri en á Norðurlöndunum og flestum löndum OECD. 

Þema skýrslunnar að þessu sinni er tækifæri til náms þar sem sérstaklega er tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um menntun. 

Nánari greiningu á niðurstöðum um íslensk menntamál má finna í samantekt um efni skýrslunnar ásamt samanburði við helstu nágrannalönd okkar á Norðurlöndum. 

Upplýsingar um efni skýrslunnar og talnaefni er að finna á vef OECD.