*

mánudagur, 10. desember 2018
Innlent 30. október 2017 12:42

Háskólamenntuðum fjölgað um 36%

Fjölgun háskólamenntaðra virðist vera umfram þarfir vinnumarkaðarins sem ásamt miðstýringu skilar sér í lægri launum.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Greiningardeild Arion banka segir vísbendingar vera um að fjölgun háskólamenntaðra á Íslandi væri umfram þarfir vinnumarkaðarins, sem endurspeglaðist í minni fjárhagslegum ávinningi af menntuninni. Á sama tíma hafi verið skortur á starfsfólki í ferðaþjónustu og byggingariðnaði enda megi rekja efnahagsuppgang síðustu ára að miklu leyti til þeirra atvinnugreina.

Í greiningu bankans segir að menntun landsmanna sé líklega ekki að þróast í takt við þarfir atvinnulífsins og samfélagsins. Þannig sé skortur á starfsfólki í sumum atvinnugreinum og -stéttum, á meðan offramboð væri annarsstaðar. Þó greiningin bendi á að markaðsleg sjónarmið vegi þungt og markaðsöflin séu að verki á vinnumarkaði tekur hún samt sem áður fram að menntun geti skapað í heildina jákvæð ytri áhrif.

Fjölgun menntaðra rúmlega tvöfalt meiri en starfa

Síðustu ár hefur háskólanemum fjölgað það mikið að nú er svo komið að fleiri Íslendingar eru með háskólamenntun heldur en eingöngu grunnmenntun. Fjölgaði þeim samtals um 18.400 eða um 36% á árunum frá 2010 til 2016. 

Hins vegar nam fjölgun stjórnenda og sérmenntaðra sérfræðinga einungis um 13.400 manns eða 15%, svo fjölgun starfa fyrir hina menntuðu virðist ekki vera að fjölga í takt við fjölgun þeirra að mati Greiningardeildar Arion banka. Er bilið jafnvel enn meira ef horft er lengra aftur í tímann, en þó er þróunin frá 2013 sú að meira hefur fjölgað í slíkum háskólastörfum.

Á sama tíma hefur fjölgað háskólamenntuðum í störfum sem þeir sóttu ekki í áður og krefjast ekki endilega háskólamenntunar. Hefur þeim fjölgað upp í allt að 10% í sumum stéttum. Bendir greiningardeildin á þá augljósu afleiðingu af þessu að miðgildi rástöfunartekna háskólamenntaðra hafi lækkað í samanburði við þá sem einungis hafa grunnmenntun. Hefur hún farið úr því að vera 36% hærri árið 2004 upp í 23% hærri í dag.

Miðstýrður vinnumarkaður lækkar laun

Ein líkleg skýring á þessu er að mati bankans hve miðstýrður vinnumarkaðurinn fyrir háskólamenntaða er hér á landi, en jafnframt er bent á að menntun sé ekki endilega sama og menntun enda fer fólk í mismunandi greinar og tekur misvel upp þekkinguna.

Frá árinu 1998 hefur mesta fjölgun háskólanema verið í viðskiptatengdum greinum og félagsvísindum, en síðan árið 2010 hefur verið gríðarleg sókn í tölvunarfræði, þar sem fjöldi nemenda hefur meira en tvöfaldast. Á sama tíma hefur dregið úr eftirspurn eftir menntunarfræðum en þar er eins og áður segir vinnumarkaðurinn einna miðstýrðastur.

Ekki nægileg fjölgun menntaðra fyrir byggingariðnaðinn

Frá árinu 2010 hefur ferðaþjónustan og byggingargeirinn staðið undir meira en helmingi nýrra starfa, en ekki virðist sem fjöldi nemenda í greinum tengdum byggingariðnaði hafi náð að halda í við vaxandi umsvif.

Hins vegar hefur nemendum í nokkrum ferðaþjónustutengdum greinum fjölgað mikið á síðustu árum, þó menntakerfið viðrist samt ekki bregðast nægilega við fjölgun ferðamannanna.