Bandaríska leigubílafyrirtækið Lyft hefur sexfaldað fjölda virkra notenda í hátt í 18,6 milljónir síðustu 30 mánuði og veltir nú 2,2 milljörðum dala, rúmum 250 milljörðum króna. Fyrirtækið birti ýmsar rekstrarupplýsingar í gær í aðdraganda fyrirhugaðs frumútboðs og skráningar á markað.

Tekjur fyrirtækisins tvöfölduðust milli ára, en samhliða örum vexti hefur kostnaður einnig aukist mikið, og á síðasta ári jókst tap félagsins um þrijðung og nam 911 milljónum dala, rúmum 100 milljörðum króna.

Ekki er komin endanleg dagsetning á frumútboðið, en fyrirtækið stefnir að sögn á að ljúka því í mánuðinum. Ekki var gefið upp hvaða heildarverðmæti forsvarsmenn fyrirtækisins vonast eftir, en síðasta verðmat fyrirtækisins hlóðaði upp á 14,5 milljarða dala, yfir 1.700 milljarða króna.

Skráningin verður svokölluð tví-flokka (e. dual-class) skráning, þar sem hlutabréf stofnendanna verða svokölluð B-hlutabréf, sem bera með sér 20 atkvæði fyrir hvert bréf. Þannig munu John Zimmer og Logan Green, sem stofnuðu fyrirtækið árið 2012, áfram hafa mikil völd innan félagsins.