*

föstudagur, 22. júní 2018
Fólk 22. ágúst 2017 18:15

Haukur nýr framkvæmdastjóri Eleven á Íslandi

Haukur B. Sigmarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Eleven Experience á Íslandi.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Haukur B. Sigmarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Eleven Experience á Íslandi. Haukur starfaði áður sem framkvæmdastjóri Servio, sem er dótturfélag Securitas og er leiðandi í lúxusakstri og sérhæfðri öryggisgæslu á Íslandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Eleven Experience á Íslandi.

Eleven rekur meðal annars lúxushótelið Deplar Farm í Fljótum í Skagafirði. Höfuðstöðvar Eleven eru í Colorado í Bandaríkjunum en fyrirtækið rekur jafnframt lúxushótel, íbúðir og skíðaskála á framandi áfangastöðum víða um heim. Öll eiga þau það sameiginleg að vera sérsniðin að þörfum viðskiptavina Eleven með tilheyrandi útbúnaði, þægindum og möguleikum til afþreyingar og ævintýra.

Eleven leggur mikla áherslu á sérsniðna upplifun gesta sinna, náttúruvernd og góða nýtingu á náttúruauðlindum. Þannig má sem dæmi nefna að nær öll matvæli á Deplum eru úr héraði á Norðurlandi. Þá vinnur fyrirtækið náið með öðrum á svæðinu, svo sem afþreyingaraðilum í ferðaþjónustu.

Í tilkynningunni segir Haukur:

„Það eru spennandi tíma í ferðaþjónustu á Íslandi og þá sérstaklega í þeim hluta hennar sem snýr að fágætisferðaþjónustu og lúxusmarkaði. Það er því mikill heiður að fá að leiða starf Eleven á Íslandi þar sem áhersla er lögð á náttúru og hreinleika Íslands. Deplar eru á afskekktum stað á landinu og bjóða því samhliða upp á fallega náttúru, afslöppun og ævintýramennsku. Við munum halda áfram að gera Ísland að eftirsóttum og spennandi áfangastað fyrir ferðamenn og tryggja upplifun með íslenska gestrisni að leiðarljósi."