Haukur Þór Hauksson og Friðjón Þórðarson hafa gegnið til liðs við GAMMA. Þeir eru báðir ráðnir sem verkefnastjórar hjá GAMMA ráðgjöf sem sinnir verkefnum tengdum sérhæfðum fjárfestingum og ráðgjöf í tengslum við fyrirtækjaverkefni. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu GAMMA .

Friðjón Þórðarson hefur yfir 18 ára reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Undanfarin ár hefur hann setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og unnið sem ráðgjafi erlendra og innlendra fagfjárfesta. Þá var hann einn af stofnendum Vörðu Capital og hefur unnið sem ráðgjafi fjölda nýsköpunarfyrirtækja. Friðjón var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Virðingar hf. frá 2007 – 2009. Áður starfaði hann sem hluta- og skuldabréfamiðlari hjá Landsbréfum og síðar sem gjaldeyris- og afleiðumiðlari hjá Landsbanka Íslands árin 2000 - 2007. Þar áður starfaði hann við uppgjör og eftirlit afleiðusamninga hjá Íslandsbanka 1999 – 2000. Friðjón er með Global Executive MBA gráðu frá IE Business School.

Haukur Þór Hauksson hefur frá árinu 2014 gegnt starfi aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Haukur Þór hefur einnig umfangsmikla reynslu á fjármálamarkaði. Frá 2009 til 2014 starfaði hann sem framkvæmdastjóri afleiðusviðs slitabús Kaupþings, stýrði afleiðuteymi félagsins og leiddi samningaviðræður hér á landi og erlendis við mótaðila um uppgjör og úrlausnir afleiðumála. Á árunum 2004 til 2008 starfaði hann sem sérfræðingur hjá Kaupþingi banka hf. við gjaldeyris- og afleiðumiðlun og skuldastýringu.

Haukur Þór er viðskiptafræðingur (Cand. oecon) af reikningshalds- og endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands. Þá hefur hann lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og hinu alþjóðlega ACI miðlunarprófi. Haukur Þór hefur einnig staðist hæfismat fjármálaeftirlitsins á hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna eftirlitsskyldra aðila og hefur setið í stjórn GAMMA frá ársbyrjun 2015.