HB Grandi og Samherji halda tveimur efstu sætunum yfir kvótaeign í íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu en Fiskistofa hefur tekið saman hlutdeild fyrirtækja yfir aflahlutdeildum.

Stofan hefur eftirlit með að enginn einstaklingur hafi yfirráð yfir kvóta umfram þau mörk sem lög kveða á um. Í útreikningunum er úthlutað aflamark fyrirtækja í hverri kvótategund reiknuð til þorskígilda, og þau svo lögð saman svo talan sýnir heildarhlutdeild fyrir hvert fyrirtæki.

Er HB Grandi með um 10,9% sem er aukning frá því í september þegar hlutfallið var 10,4%. Samherji er svo með 6,3%. Næst á eftir koma svo Síldarvinnslan í Neskaupstað, Þorbjörn í Grindavík og FISK-Seafood Sauðárkróki.

Stofan hefur einnig tekið saman krókaaflahlutdeild útgerða, en í þeim hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins eru sömu þrjú fyrirtækin einnig með stærsta hlutfallið. Það er hafnfirska fyrirtækið Grunnur með 4,6%, bolvíska fyrirtækið Jakob Valgeir og svo Einhamar Seafood, bæði með 4,1%.

Fækkað um meira en helming

Útgerðum sem ráða yfir aflahlutdeildum hefur fækkað frá fiskveiðiárinu 2005/2006 til dagsins í dag, úr 946 í 382, en þeim hefur fækkað um 3 síðan 1. september síðastliðinn.

Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða má heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 12% af samanlögðu heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. Þá má aflahlutdeild í þorski ekki fara yfir 12%. Í ýsu, ufsa, grálúðu, steinbít, síld og loðnu má hún ekki fara yfir 20% og í karfa ekki yfir 35%.

Heildarkrókaaflahlutdeild einstakra eða tengdra aðila má ekki fara yfir 5% af samanlögðu heildarverðmæti krókaaflahlutdeilda. Þá má krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 4% í þorski og 5% í ýsu.

Eina fyrirtækið sem  fer yfir  hámarkshandhöfn á hlutdeildum er Salting ehf sem  ræður yfir  5,15% krókaaflahlutdeilda í ýsu. Fyrirtækið hefur ákveðinn frest til að leiðrétta þá stöðu segir á vef Fiskistofu .