Útgerðarfyrirtækið HB Grandi hefur keypt nýja röntgenstýrða beinaskurðarvél frá nýsköpunarfyrirtækinu Völku. Samningur þessa efnis var undirritaður á sjávarútvegssýningunni í Brussel í síðustu viku. Þetta mun vera fyrsta vélin sinnar tegundar í heiminum sem er ætluð til skurðar á þorskflökum. Vélin var sýnd í fyrsta skipti opinberlega á sýningunni.

Fram kemur í tilkynningu að HB Grandi tók þátt í að þróa beinaskurðarvélina með Völku og hefur sú vél verið í notkun í fiskiðjuveri HB Granda í Reykjavík frá því í september í fyrra. Vélin er notuð til að skera beingarð úr karfaflökum auk þess sem hnakkabitar eru skornir sjálfvirkt í vélinni.

Vélin verður nýtt til að auka þorskvinnslu HB Granda á Akranesi og horft til þess að stuðla að auknum afköstum og nýtingu í bitaskurði. Fyrirtækin eru saman í þróunarverkefni sem gengur út á að bæta nýtinguna enn frekar með hallandi skurði en það verkefni er styrkt af AVS-sjóðnum og Tækniþróunarsjóði.

Í tilkynningunni er rifjað upp að HB Grandi hlaut nýverið Útflutningsverðlaun forseta Íslands og Valka hlaut Nýsköpunarverðlaunin sem veitt eru af Rannís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarsjóði og Íslandsstofu.

Á myndinni hér að ofan eru frá vinstri: Ágúst Sigurðarson – sölustjóri hjá Völku, Jónas Guðbjörnsson – fjármálastjóri hjá HB Granda, Helgi Hjálmarsson – framkvæmdastjóri hjá Völku, Torfi H. Þorsteinsson – framleiðslustjóri HB Granda, Hannes Gunnarsson – þróunarverkfræðingur hjá Völku, Matthías Jónasson – sölustjóri hjá Völku, Kristján Davíðsson – stjórnarformaður hjá Völku, Loftur Bjarni Gíslason – vinnslustjóri ísfiskskipa hjá HB  Granda, Þröstur Reynisson – vinnslustjóri landvinnslu hjá HB Granda.