*

laugardagur, 20. apríl 2019
Innlent 10. september 2016 17:18

Hefðu þurft tvö ár

Faghópur sem átti að meta hagkvæmni virkjunarkosta vegna 3. áfanga rammaáætlunar var skipaður í desember.

Trausti Hafliðason
Birgir Ísl. Gunnarsson

Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og formaður eins af faghópum verkefnisstjórnar rammaáætlunar, segir að  útilokað hafi verið að meta þjóðhagslega hagkvæmni virkjunarkosta á þeim stutta tíma sem hópurinn hafi starfað en hann var skipaður í desember síðastliðnum. Daði Már segir að málið sé alvarlegt því margar af þeim ákvörðunum ,sem teknar verði á grundvelli lokaskýrslu verkefnisstjórnar, verði óafturkræfar.

Þann 26. ágúst fékk Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenta lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar. Í skýrslunni eru lagðar fram tillögur að flokkun virkjunarkosta í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Sex dögum eftir að hafa fengið skýrsluna í hendur lagði umhverfisráðherra, að höfðu samráði við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Er tillaga ráðherra samhljóða niðurstöðum verkefnastjórnar.

Fyrir viku, eða sama dag og ráðherra lagði tillöguna fyrir Alþingi, greindi Viðskiptablaðið frá því að í lokaskýrslu verkefnisstjórnar hafi þjóðhagsleg hagkvæmni virkjunarkosta ekki verið metin. Undir verkefnisstjórninni, sem var skipuð í mars 2013, störfuðu fjórir faghópar. Faghópur 1 fjallaði um náttúru og menningarminjar. Faghópur 2 um útivist og hlunnindi, faghópur 3 um þjóðhagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun og faghópur 4 um nýtingu orkulinda. Daði Már var formaður faghóps 4.

„Okkar hópur var skipaður í desember og það var algjörlega útilokað að framkvæma þær rannsóknir, sem ég tel að hafi verið nauðsynlegar, á þeim stutta tíma sem við höfðum," segir Daði Már. „Það hefði tekið tvö ár að klára þessar rannsóknir."

Spurður afhverju hópurinn hafi verið skipaður svona seint svarar Daði Már: „Ég get ekki svarað því. Þegar ég var fenginn til að taka þátt í þessu verkefni, þá sagði ég fyrirfram að ég myndi lista upp það sem ég teldi að hefði átt að gera.

Vitleysa

Daði Már segir að út frá aðferðarfræði umhverfishagfræði hefði átt að leggja fjárhagslegt mat á niðurstöður faghópa 1, 2 og 3, ásamt niðurstöðum Orkustofnunar um kostnað og væntar tekjur virkjana.

„Það hefði átt að leggja fjárhagslegt mat á umhverfisáhrifin, fórnarkostnað ferðaþjónustunnar og meta samfélagsáhrifin til fjár eins og hægt var. Síðan hefði hefði átt að meta ábatasemi verkefnanna, arðsemi virkjananna, og að þessari vinnu lokinni hefði verið hægt að flokka virkjunarkostina. Þetta er hið eiginlega þjóðhagslega mat. Það að halda að hægt sé að leggja fram eitthvað þjóðhagslegt mat, sem ekki tekur til allra þessara þátta, er vitleysa.

Það sem er alvarlegt í þessu er að margar af þeim ákvörðunum, sem nú verða teknar á grundvelli þessarar skýrslu eru óafturkræfar. Ég er ekki að halda því fram að rangir kostir séu í nýtingarflokki, biðflokki eða verndarflokki og ég er á engan hátt að gagnrýna vinnu annarra faghópa. Ég held því aftur á móti fram að það liggi ekki fyrir upplýsingar til að taka þessar ákvarðanir.
Búið er að þróa aðferðir til að meta þetta allt saman.  Það er alls ekki eins og við séum að finna upp hjólið. Bandaríkjamenn hafa notað þessa aðferðarfræði um árabil, eða síðan Reagan var við völd. Þegar þeir setja nýjar umhverfisreglur þá er framkvæmt svona kostnaðar- og ábatamat."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim