Samkvæmt tveimur breskum embættismönnum stefna forsætisráðherrann Theresa May og hennar teymi á að hefja útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu á fyrri hluta næsta árs. Bloomberg greinir frá.

Breskir fjölmiðlar greindu nýlega frá því að May myndi hugsanlega bíða fram til enda næsta árs með að hefja tveggja ára samningaferli um útgöngu Bretlands. Hins vegar ku hún vera hlynnt því að hefja ferlið ekki síðar en í apríl næstkomandi þar sem Frakkland og Þýskaland undirbúa kosningar og stuðningsmenn útgöngu hafa varað við því að byrja ekki strax.

Fundur leiðtoga Evrópuríkjanna í mars gæti verið rétti tíminn til að virkja 50. Grein Lissabon-sáttmálans, sem ákvarðar hvernig aðildarríki yfirgefur ESB. May hefur kosið að taka sinn tíma í að veita ríkisstjórn Bretlands að ráða teymi og undirbúa langar viðræður. Sagði hún í því ljósi að ekkert yrði gert á þessu ári.

Aðalsamningamaður Bretlands um útgönguna úr ESB er David Davis og er hann enn í því ferli að ráða til sín starfsfólk. Þrátt fyrir upphaflega pressu frá umheiminum til að drífa útgönguna af í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu Breta hafa leiðtogar á borð við Angelu Merkel, kansalara Þýskalands, viðurkennt að Bretar þurfi tíma til að móta afstöðu sína til áframhaldandi Evrópusamstarfs í framtíðinni.