*

fimmtudagur, 17. janúar 2019
Innlent 4. ágúst 2017 14:21

Hefja gjaldtöku á útsýnispalli Perlunnar

Þann 1. september næstkomandi mun Perla norðursins hefja gjaldtöku út á útsýnispall Perlunnar. Gjaldið nemur 490 krónum fyrir 16 ára og eldri.

Ritstjórn

Þann 1. september næstkomandi mun Perla norðursins hefja gjaldtöku út á útsýnispall Perlunnar. Rukkað verður 490 krónur fyrir 16 ára og eldri en frítt verður fyrir 15 ára og yngri sem og gesti íshellis og jöklasýningar Perlunnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Gjaldtakan er sett á vegna aukins viðhalds- og rekstrarkostnaðar en Perlan mun í kjölfarið fjölga upplýsingastöndunum á útsýnispallinum í þeim tilgangi að auka upplifun gesta og fræða þá enn betur um það sem fyrir augu ber.  

„Þegar mest er koma um 5 þúsund gestir til okkar í Perluna á degi hverjum og hefur þessi umferð kallað á aukinn kostnað. Við munum því leggjast í framkvæmdir á útsýnispallinum á næstu misserum þar sem við munum stórbæta aðstöðuna og þar af leiðandi upplifun þeirra sem á útsýnispallinn koma,“ segir Agnes Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Perlu norðursins. „Perlan verður þó að sjálfsögðu opin öllum gestum þeim að kostnaðarlausu og vonum við að gestir Perlunnar taki vel í þetta framtak.“